Af hverju verkfræði?

Að velja háskólanám - eða að velja að fara ekki í háskóla - er ein stærsta ákvörðun sem hægt er að taka fyrir tvítugt. Ég var tuttugu-og-eins þegar ég tók mína ákvörðun og ég hefði ekki mátt vera deginum yngri.

Ef þú endist út fyrstu önnina mun leiðin sem þú velur koma til með að einkenna þig það sem eftir er.

Þegar ég les yfir ferilskránna mína finnst mér hálf einkennilegt að ég hafi endað í verkfræði. Það er til dæmis erfitt að sjá hvað vöruhönnun á sameiginlegt með hverfitregðu, eða stefnumótun með tvinntölum.

Miðað við reynslu og fyrri störf ætti ég miklu frekar heima í viðskiptafræði, grafískri hönnun eða jafnvel tölvunarfræði. Ég var meira að segja einn músarsmell frá því að skrá mig í heimspeki.

… en það er eitthvað við stærðfræði, vísindi og tölfræðilega greiningu sem heillaði mig og gerir enn. Að geta kafað djúpt ofan í rótina á einhverju vandamáli og krufið það í smærri einingar eins og Rutherford gerði við atómið. Að geta skilið hvað fær alheiminn til þess að haga sér eins og hann gerir og nota það sem byrjunarreit þaðan sem ég get leitað að frekari sannleik um minna merkileg fyrirbæri á borð við fjármálamarkaði, fasteignir eða skák.

Hlutir líta bara út fyrir að vera flóknir á yfirborðinu. Þegar þú getur brotið þá niður í þúsund smærri einingar virðist hver fyrir sig vera nánast of einföld. Það vita allir góðir verkfræðingar - og ég þykist vita það núna þó það séu tvö ár í að ég fái gráðuna.

 
8
Kudos
 
8
Kudos

Now read this

Persónuleiki.is

Í ár munu fjögur ár hafa liðið frá því að Donald Trump vann forsetakosningar Bandaríkjanna árið 2016. Það kom mörgum vægast sagt á óvart og hefði vitaskuld aldrei átt að gerast undir venjulegum kringumstæðum. Ef ekki hefði verið fyrir... Continue →