Hentugt hugsanalíkan fyrir ákvarðanatöku

Sem verðandi verkfræðingur hef ég mikinn áhuga á því að setja upp kerfi eða módel fyrir hluti sem koma reglulega fyrir. Allir góðir stjórnendur gera sér grein fyrir kostum þess að koma upp skýrum ferlum sem taka á hversdagslegum en nauðsynlegum verkefnum félagsins - en það eru miklu færri sem hafa fyrir því að koma upp ferlum í sínu eigin atferli.

Ég held þó að þannig sé hægt að besta marga þætti mannlegrar tilveru og koma í veg fyrir marga af okkar eðlislægu göllum. Hér ætla ég því að fjalla stutt um hugsanalíkan sem ég hef lengi notað sem hjálpartæki þegar kemur að stórum ákvörðunum.


Þegar ég þarf að taka stóra ákvörðun - sama hvort um ræðir persónuleg málefni eða rekstur - þá bý ég til nýtt skjal í Google Drive og skrifa niður 6 einfaldar spurningar:

1. Hvað veit ég? #

Fyrstu tvær spurningarnar snúast um að stilla upp leiksviðinu. Til þess að geta tekið rétta ákvörðun þarf ég að vera fullkomlega meðvitaður um hvað ég veit og hvað ég veit ekki.

Phil Knight, stofnandi Nike, talaði til dæmis um að þegar félagið var að ganga í gegnum sína erfiðustu vaxtaverki kom hann oft heim til sín, settist beint í uppáhalds hægindastólinn sinn og spurði sig „What do I know?“. Þetta hjálpaði honum oft að skýra sínar eigin hugsanir og virkaði sem upphafspunktur fyrir frekari vangaveltur.

Þessi spurning ein og sér gæti þó leitt mann í ranga átt ef maður myndi ekki líka spyrja sig…

2. Hvað veit ég ekki? #

Alveg jafn mikilvæg spurning og sú fyrsta. Það gerist mjög sjaldan að maður hafi tiltæka alla þá þekkingu sem þarf til þess að geta tekið alveg rétta ákvörðun.

Þannig er strax búið að stilla leiknum upp á móti manni, og það eina sem hægt er að gera er að viðurkenna vanþekkinguna. Að lista upp alla þá hluti sem við a.m.k vitum að við vitum ekki er nauðsynlegt til þess að eiga möguleikan á því að taka góða ákvörðun.

Í framhaldinu er svo hægt að ákveða hvort það sé hægt að taka endanlega ákvörðun án þess að vita svörin við einhverju af þessu sem við segjumst ekki vita - og ef svo, þá er hægt að kynna sér það betur og vonandi færa niðurstöðuna í kaflann um það sem við vitum.

3. Hvað finnst mér að sé rétt að gera? #

Þegar fyrstu tveimur spurningunum hefur verið svarað er búið að vinna alla heimavinnuna til þess að geta haldið áfram. Eftir að hafa listað upp allt sem við vitum og allt sem við vitum ekki erum við yfirleitt komin með tilfinningu fyrir því hvað okkur finnst að sé rétt.

Það þýðir ekki endilega að það sé rétt, en það er gott að draga það úr undirmeðvitundinni og yfir í ljósið. Ef ekkert meira kemur í ljós er lang best að gera bara það sem okkur finnst að sé rétt - hjartað hefur meira að segja oftast rétt fyrir sér.

4. Hvernig gæti ég haft rangt fyrir mér? #

Ef ákvörðunin er nógu mikilvæg til þess að við séum yfir höfuð byrjuð að greina hana kerfislega, þá er nauðsynlegt að átta sig á því hvernig við gætum verið að mishugsa kringumstæðurnar. Þetta er oft erfiðasta spurningin, því hún getur krafist þess að við þurfum að endurhugsa eitthvað af svörunum okkar við fyrstu spurningunni.

Kannski erum við að ofmeta hvað við vitum og vanmeta hversu mikið við vitum ekki.

5. Hvaða afleiðingar myndi það hafa? #

Í ljósi þess hvernig við gætum haft rangt fyrir okkur - hvað myndi líklega gerast í kjölfarið? Svarið getur verið - og er oft - að afleiðingarnar væru óbeinar og að við myndum aldrei komast að því hvort að ákvörðunin hafi í raun verið rétt eða röng.

En afleiðingarnar geta líka verið augljóslega slæmar, en það þarf að hafa í huga þegar kemur að því að taka ákvörðun um framhaldið. Í ljósi áhættustýringar getur undir ákveðnum kringumstæðum verið betra að taka hlutlausa ákvörðun sem hefur í för með sér litlar afleiðingar en hafa ber í huga að enginn hefur náð árangri með því að taka alltaf hlutlausar ákvarðanir.

6. Hvað ætla ég að gera núna? #

Þegar að allar hliðar málsins hafa verið skoðaðar á svona kerfisbundinn máta er loksins hægt að taka ákvörðun um framhaldið með nokkurri vissu um ágæti eigin rökstuðnings.

Það getur auðvitað verið að ákvörðun sé tekin um að fresta því að taka endanlega ákvörðun þangað til að betri upplýsingar standi til boða, en yfirleitt hafa þessar spurningar greitt úr þeirri ólgu sem oft dvelur í huga okkar og einfaldað málið töluvert. Rétta svarið er yfirleitt augljóst á þessum tímapunkti.

Í versta falli munu þessi skrif vera ómetanleg hjálp þegar kemur að því að endurmeta stöðuna seinna, en þá er einmitt auðvelt að setja sig strax í réttu sporin.

Skjalið er síðan vistað með dagsetningu og lýsandi nafni, en þá er einnig hægt að senda þessar vangaveltur á einhvern annan sem getur mögulega komið með aðra sýn á málið, komið með svarið við einhverju sem við segjumst ekki vita eða dregið í efa eitthvað við höfðum áður skrifað að við vissum fyrir víst.


Ég hvet alla til þess að þróa með sér svipað líkan eða jafnvel nota þetta alveg eins og því er lýst. Yfirleitt tekur þetta ekki nema 10 mínútur og getur sparað manni heilu dagana af hausverk.

Í minni bók telst það góð fjárfesting.

 
6
Kudos
 
6
Kudos

Now read this

„It’s All About the Long Term"

Það kemur mér aldrei á óvart þegar ég opna netmiðla þessa heims og les enn eina fréttina um velgengni Amazon, nú nýlegast kaup þeirra á Whole Foods Market Inc. Það er vegna þess að fyrir fjórum árum var mér bent á að lesa hluthafabréf... Continue →