Persónuleiki.is

Í ár munu fjögur ár hafa liðið frá því að Donald Trump vann forsetakosningar Bandaríkjanna árið 2016. Það kom mörgum vægast sagt á óvart og hefði vitaskuld aldrei átt að gerast undir venjulegum kringumstæðum.

Ef ekki hefði verið fyrir einstakt forskot, ómetanlegar upplýsingar sem gerði kosningateyminu hans kleyft að kortleggja, skilja og móta bæði hugsanir og tilfinningar a.m.k 50 milljón Bandaríkjamanna – þá hefði hann líklega aldrei unnið og heimsmyndin væri mjög ólík því sem við sjáum í dag.

Hvaða upplýsingar geta mögulega haft svo mikil áhrif? Það að vita t.d aldur og kyn fólks getur ekki beint hjálpað einhverjum að skilja og móta tilfinningar þeirra. Ekkert jafn abstrakt og yfirborðskennt getur mögulega gefið nægilega mikið í ljós um þig sem hugsandi einstakling. Þú veist að þú ert ekki eins og allar aðrar konur, eða allir aðrir hvítir menn í Reykjavík á aldrinum 19-29. Það sem gerir þig að þér hefur lítið sem ekkert að gera með þjóðfélagshópinn þinn.

Nei – til þess að geta kortlagt, skilið og mótað bæði hugsanir og tilfinningar þarftu upplýsingar um hvað er að gerast inni í hausnum á manneskjunni. Það eru hugsanir mínar og tilfinningar sem móta minn daglega raunveruleika og þær stjórnast af miklu leyti af persónuleikanum mínum, sem er því miður svo flókinn að ég skil mig yfirleitt ekki sjálfur.

En það þýðir ekki að aðrir geti það ekki heldur.

Sálfræðingar hafa í gegnum tíðina þróað mörg persónuleikamódel í von um að geta skilið manneskjuna betur, oftast í anda vísindanna, en stundum með hagnýtari hluti í huga.

Ef þú værir kosningastjóri Donald Trump, heldur þú að það myndi til dæmis hjálpa þér að búa til sannfærandi auglýsingu ef þú myndir vita fyrir víst að sá sem myndi sjá hana væri úthverfur – „extróvert" – og óvenju lítið jafnlyndur? Mér finnst líklegt að svarið sé já.

Lýsingarorðin „úthverfur" og „jafnlyndur" eru tveir þættir í hinni svokölluðu „Fimm Þátta Persónuleikagreiningu", en það er einmitt verkfærið sem gerði gagna- og tæknifyrirtækinu Cambridge Analytica kleyft að kortleggja, skilja og móta rúmlega 50 milljónir Bandaríkjamanna fyrir kosningarnar 2016.

Með því að notfæra sér Facebook sem dreifileið fengu þeir milljónir manna til þess að svara stuttri spurningakönnun. Þessi könnun var fimm þátta persónuleikapróf, og það var allt sem þeir þurftu. Restin var auðveld fyrir hámenntaða sálfræðinga og atferlisfræðinga.

Talandi um menntaða sálfræðinga og atferlisfræðinga, þá vinna eflaust nokkrir slíkir hjá Íslenskri Erfðagreiningu, en Kári Stefánsson & co. bjuggu nýlega til sitt eigið fimm þátta persónuleikapróf á netinu sem, eins og forveri sinn, er farið að dreifast um Facebookheiminn – þó einungis hinn íslenska í þetta skiptið.

Vefsíðan Persónuleiki.is og spurningagáttin Svipgerð hafa eflaust fengið þúsundir heimsókna undanfarna daga og líklega hafa ófáir tekið þessa könnun. Á einungis 15 mínútum getur hver sem er fengið ókeypis persónuleikamat, sem er mjög hentugt því svona próf kosta yfirleitt eitthvað. En ekkert er alveg ókeypis og í þessu tilfelli borgar fólk með því að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum, en með því tengja þau niðurstöðurnar við allar hinar upplýsingarnar sem Íslensk Erfðagreining á um þig – sama hvort að kennitalan er „dulkóðuð" eða ekki.

Með því að tengja skapgerð og persónuleika við Facebook prófíl gat Cambridge Analytica mótað sögu Bandaríkjanna. Hvað er hægt að gera þegar að skapgerð þín og persónuleiki er tengdur við genin þín – þegar allt sem gerir þig að þér kemur saman á einn stað, í snyrtilegu og vel skipulögðu gagnasafni?

Ég er sjálfur ekki nægilega klár til að gera mér fyllilega grein fyrir því, en ég get ímyndað mér að Kári sé með einhverjar magnaðar hugmyndir. Ég hef fulla trú á því að Íslensk Erfðagreining sé að fylgja ítrustu stöðlum persónuverndar og mér finnst ólíklegt að þeir muni nokkurntíman selja þessar upplýsingar, en einhverstaðar þarf þetta að skila sér í auknum tekjum, ekki satt? Leigan á Sturlugötu 8 borgar sig ekki sjálf?

Ég veit ekki hvert markmiðið er og vonandi leysa þau öll heimsins vandamál með djúpum skilningi sínum á flóknum dansi gena og persónuleikans. Vonandi gerir þetta sálfræðingum framtíðarinnar kleyft að betur hjálpa skjólstæðingum sínum og vonandi hjálpar þetta einhverjum hjá deCODE að skilja betur samanlagðan persónuleika íslensku þjóðarinnar – svo að sá og hinn sami geti loksins áttað sig á því hvernig á að haga sér á almenningsstöðum eins og í World Class Laugum.

En umfram allt vona ég að þessar upplýsingar endi ekki í röngum höndum, aftur.

 
8
Kudos
 
8
Kudos

Now read this

Af hverju verkfræði?

Að velja háskólanám - eða að velja að fara ekki í háskóla - er ein stærsta ákvörðun sem hægt er að taka fyrir tvítugt. Ég var tuttugu-og-eins þegar ég tók mína ákvörðun og ég hefði ekki mátt vera deginum yngri. Ef þú endist út fyrstu... Continue →