Að finna sína rödd

Það er erfitt að tjá sig um samfélagsmiðla án þess að líta út fyrir að vera hræsnari. „Lítum upp” átakið lifir enn í minningu flestra á mínum aldri, en Vaka Njáls er núna einn virkasti Instagrammari sem ég þekki.

Ég trúi því þó innilega að með því að taka sér þá pásu sem hún tók, hafi hún öðlast dýpri innsýn inn í hvernig er hægt að nota þessa miðla sem verkfæri frekar heldur en eitthvað annað. Á kaldhæðnislegan hátt fann hún sína rödd með því að taka hana tímabundið í burtu. Ég vil meina að þetta sé algengara en við viljum halda.

Prófaðu að slökkva á Snapchat áminningum. Fátt í þessum heimi er ómerkilegra heldur en fimm klukkustunda gamalt snapp. Þú munt ekki nenna að skoða þau.

Prófaðu að eyða Instagram. Ekki accountinum þínum, heldur bara appinu. Það er eitthvað off við að eyða klukkutíma á dag í að skoða aðra monta sig og vilja svo gera slíkt hið sama (en bara þegar eitthvað merkilegt er að gerast).

Því hvað situr eftir? Hvað manstu eftir mörgum hlutum sem þú sást á Facebook í seinustu viku?

Ef þú ert ekki að reyna að verða söngvari eða lífstílsgúrú, þá er allt í lagi að viðurkenna gagnvart sjálfum sér að maður hafi ekkert að segja. Og ef maður hefur ekkert að segja - eins og ég í 99% tilfella - þá held ég að samfélagsmiðlar séu nettó slæmir.

Það er nefnilega fullkomlega eðlilegt að geta ekki tjáð sig um neitt mikilvægt þegar maður er ennþá í skóla og að reyna að átta sig á því hvað maður vill gera í lífinu.

Maður þarf að finna sína eigin rödd áður en maður reynir að tjá sig, og besta leiðin til þess að finna hana er að gleyma því sem allir aðrir eru að blaðra um og einbeita sér að sjálfum sér.

Þegar þú hefur svo búið til eitthvað virði, þá getur þú loksins komið til baka og notað samfélagsmiðla eins og verkfærið sem þeir eru.

… Nú, ekki nema þér finnist bara ótrúlega gaman að blaðra um ekki neitt ?

 
16
Kudos
 
16
Kudos

Now read this

Hentugt hugsanalíkan fyrir ákvarðanatöku

Sem verðandi verkfræðingur hef ég mikinn áhuga á því að setja upp kerfi eða módel fyrir hluti sem koma reglulega fyrir. Allir góðir stjórnendur gera sér grein fyrir kostum þess að koma upp skýrum ferlum sem taka á hversdagslegum en... Continue →