Þegar tölfræðin bregst

Amma mín lést að sökum krabbameins. Það var ekki fyrsta krabbameinið sem sigraði hana, heldur það þriðja. Þetta gerist oftar en maður myndi halda - að einhver lifi af fyrstu árás meinsins en falli hægt og rólega saman í kjölfarið.

Þetta á sér einfalda og sorglega útskýringu.

Fáir sem ekki hafa horft upp á einhvern nærri sér ganga í gegnum lyfjameðferð vita hversu ógeðfelld mörg krabbameinslyfjana eru. Þau eru eftir allt saman hönnuð til þess að hægja á eða stoppa vöxt frumna, og lyfin eiga það til að geta ekki greint á milli heilbrigðra og sýktra frumna.

Læknisfræðin í heild sinni byggist á tölfræði. Ef ákveðið lyf hjálpar 80% af fólki með kvef í 90% tilfella mun venjulegur læknir líklega mæla með lyfinu í 100% tilfella.

Þegar um krabbameinslyf er að ræða virkar ekkert lyf í 80% tilfella. Bestu lyfin hjálpa kannski 20% af sjúklingum, en geta oft haft mjög slæm áhrif á alla hina. Það er einmitt þess vegna sem læknar skrifa upp á heilu lyfjakokteilana þegar kemur að krabbameinslyfjameðferð. Læknirinn fær þig til þess að taka tuttugu lyf því eitt af þeim hlýtur eftir allt saman að virka. Ef þessi kokteill nær ekki að drepa meinið þá hljóta svörin að liggja í þeim næsta.

„Jú, vissulega mun líkaminn þinn vera í lamasessi eftir ringulreiðina - en við náðum að kæfa einkennin!“

… þangað til líkaminn mætir minnsta álagi aftur, en þá erum við aftur mætt á byrjunarreit. Ónæmiskerfi krabbameinssjúklinga er oft í algjöru ólagi eftir slíka meðferð.

Lausnin á þessu vandamáli kallast krabbameinslyfjanæmispróf, en hún snýst um að taka sýni úr æxli sjúklingsins og prufa á því allar mismunandi tegundir lyfja. Þannig er á skilvirkan hátt hægt að finna hvaða lyfjasamsetningar vinna lítið á æxlinu áður en lyfjameðferðin hefst. Með þessu er nánast hægt að útrýma möguleikanum á því að sjúklingur taki lyf sem gera ekkert til að vinna á meininu og hafa bara í för með sér neikvæðar aukaverkanir.

Af hverju er svona lyfjanæmispróf ekki læknisfræðileg skylda á öllum vestrænum sjúkrahúsum? Jú, því það er gagnslaust að taka meðaltalið af einum. Tölfræðilegur og ópersónulegur hugsunarháttur læknastéttarinnar kemur beint í veg fyrir árangur og framfarir á þessu sviði.

Breytingar eru að mínu mati augljóslega nauðsynlegar, en því miður hlusta læknar ekki á neinn nema aðra lækna, og ég er enginn læknir.

 
3
Kudos
 
3
Kudos

Now read this

Af hverju verkfræði?

Að velja háskólanám - eða að velja að fara ekki í háskóla - er ein stærsta ákvörðun sem hægt er að taka fyrir tvítugt. Ég var tuttugu-og-eins þegar ég tók mína ákvörðun og ég hefði ekki mátt vera deginum yngri. Ef þú endist út fyrstu... Continue →