Alltaf eitthvað

I.

Þann þriðja janúar 2016 tók ég ákvörðun sem breytti lífi mínu.

Ég var nýorðinn tuttugu ára gamall og var staddur á milli framhaldsskóla og háskóla.

Ég var nokkrum dögum frá því að gefa út app sem ég hafði unnið að í rúmlega hálft ár. Ég var þjakaður af efasemdum um hugmyndina, útfærsluna og sjálfan mig. Ég var að missa svefn, var með varaþurrk og hlutir voru að fara úrskeiðis hægri, vinstri, norður og suður.

Mér hefði eflaust liðið betur ef ég hefði getað skýlt mér á bak við reynsluleysi, en þetta var hvorki í fyrsta né annað sinn sem ég var í þann mund að gefa út vöru sem ég hafði tekið þátt í að búa til.

Þremur árum áður hafði ég lært að forrita til þess að búa til verslunarmiðstöð á netinu, Nomo.is, sem lifði ekki í nema rétt rúmlega hálft ár því ég og "viðskiptafélagar" mínir vorum 17 ára og vissum ekki neitt. Og þá allra síst um viðskipti, þrátt fyrir að nemendur við Verzlunarskóla Íslands.

Ári seinna, í nýsköpunaráfanga, tók ég svo þátt í að búa til platveðmálasíðuna Lucky League og í millitíðinni hafði ég líka verið fenginn til að búa til tímabókunarkerfi fyrir hárgreiðslustofur, sem ég átti þá með tveimur eldri mönnum sem mér leist minna og minna á með hverjum deginum sem leið.

Ég nefni þetta allt til að varpa ljósi á einfalda staðreynd: eins og margir ungir strákar sem alast upp í kringum föður í fyrirtækjarekstri var ég sjálfur framkvæmda- og fyrirtækjaóður.

Ég þráði að láta eitthvað gerast, sanna mig, jafnvel sýna mig.

Það var þess vegna draumur að rætast þegar, í kjölfarið af því að hafa mætt á leikjaráðstefnu til að kynna Lucky League, ég fékk boð um að taka þátt í viðskiptahraðlinum Startup Reykjavík. Þetta var tækifærið sem ég hafði beðið eftir - tækifæri til þess að læra og skapa, leysa vandamál og stækka tengslanetið. Tækifæri til að láta eitthvað gerast, sanna mig, sýna mig.

Undir flestum kringumstæðum hefði ákvörðunin um að hoppa á þetta tækifæri verið mjög auðveld, en það sem flækti málið var að ég hafði í nokkra mánuði tekið þátt í að undirbúa og skipuleggja 6 mánaða heimsreisu með þremur af mínum bestu vinum.

Ég var farinn að sjá ævintýrin í hillingum þegar boðið barst og bjó til skörp skil í vegi mínum.

II.

I shall be telling this with a sigh Somewhere ages and ages hence: Two roads diverged in a wood, and I— I took the one less traveled by, And that has made all the difference.

Ég man skýrt eftir að hafa hugsað um hinn minna farna veg hans Robert Frosts þegar ég tók að lokum ákvörðun um að segja mig úr heimsreisunni. Eftir á að hyggja er ég þó ekki alveg viss um að leiðin sem ég valdi sé raunverulega sú sem er minna farin, en þannig leið mér í augnablikinu og það er sagan sem ég sagði sjálfum mér.

Ég, Hörður Guðmundsson og Kristján Ingi Geirsson fórum inn í Startup Reykjavík með hugmynd sem reyndist vera ólíkleg til árangurs og við þurftum að "pivota", eða taka stefnubreytingu, hugtak sem starfsfólk SR þreyttist ekki á að minna teymin tíu á.

Eftir nokkur erfið kvöld og langa töflufundi ákváðum við að "gera lestur skemmtilegan aftur" með því að búa til app sem gaf 7-14 ára krökkum "heilasellur" fyrir að svara spurningum um uppáhalds bækurnar sínar. Sem barn áttir þú síðan að geta notað þessar heilasellur til að opna á verðlaun sem foreldrar þínir höfðu stilltu upp.

Á þessum tímapunkti, árið 2015, var minnkandi læsi íslenskra barna reglulega í fréttum og okkur fannst það mjög sorgleg þróun. Við sáum fyrir okkur framtíð þar sem búið væri að skipta út lestri fyrir myndbönd og hlaðvörp og okkur fannst að eitthvað dýrmætt hlyti að tapast á leiðinni þangað.

Sumarið leið undir lok og Startup Reykjavík með. Við leigðum þrjú skrifborð í frumkvöðlasetrinu við Hlemm og einbeittum okkur að því að kóða. Við vorum í kapphlaupi við tímann, með götóttan bankareikning og ég þurfti að sanna fyrir sjálfum mér að það hefði verið rétt ákvörðun að segja nei við heimsreisunni - heimsreisu sem var á þessum tímapunkti í fullum gangi, og sem ég fékk að fylgjast með frá fyrstu sætisröð á samfélagsmiðlum.

III.

Eins og alltaf tók hugbúnaðarsmíðin lengri tíma en við héldum. Við ætluðum að ná jólabókaflóðinu en það tókst ekki. 2015 rann úr greipum okkar og nýtt ár tók við.

Þegar fyrirtæki taka þátt í Startup Reykjavík fá þau tvær milljónir króna í skiptum fyrir sex prósent af fyrirtækinu. Það var sáralítið af þessum peningum eftir, og því meira sem við lærðum um menntunartæknimarkaðinn því minni trú höfðum við á því að við myndum nokkurntíman ná að borga okkur laun.

Kvíðinn, efinn, fomo-ið og áramótin mynduðu saman sterkan tilfinningakokteil sem var mjög súr á bragðið, en eins og allir vita sem hafa gengið í gegnum erfið tímabil þá kemur lífið í sveiflum og í þetta skiptið myndaði kokteillinn fróan jarðveg fyrir breytingar.

Eitt af því sem ég tel að ég verð að gera betur á þessu nýja ári er að skýra hugsanir mínar og færa þær yfir í form sem einkennist af röð og reglu. Ég hef því ákveðið að reyna svolítið nýtt. Það að skrifa hugsanir sínar niður krefst þess að maður hugsi á skipulagðan hátt og því ætla ég mér að setjast niður og skrifa um það sem liggur mér á hjarta í 10 mínútur á hverjum degi. Þetta geri ég samhliða því að ég ætla mér að lesa a.m.k eina bók á mánuði - í undirbúningi fyrir það að lesa eina bók á tveggja vikna fresti á næsta ári. Það mun þó líklega koma í ljós að ég muni ekki geta gert þetta vegna háskólanáms. En hey - sjáum til. - Ég, 3. janúar 2016

Ég skrifaði þegar mér leið vel og ég skrifaði þegar mér leið illa. Ég skrifaði á toppnum og á botninum sem fylgdi alltaf. Ég skrifaði um hvað ég var að gera og hvað ég var að hugsa - í fyrstu presónu, annarri og þriðju. Stundum á kvöldin, stundum á morgnanna, en alltaf eitthvað. Stundum lítið, stundum mikið, en alltaf eitthvað.

Hver dagur hafði í för með sér nýtt vandamál, nýja áskorun, og mér leið oftar en ekki eins og ég væri ekki hæfur um að taka réttu ákvarðanirnar. Ég var ekki bara ungur og vitlaus heldur líka með fullkomnunaráráttu á háu stigi.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég sit lengi fyrir framan tölvuna, vitandi að það eru mikið af hlutum sem þarf að klára, græja og gera - en fæ mig ekki til þess að byrja á þeim hlutum. Ef ég ætti að reyna að greina þessa hegðun, þá held ég að þetta gerist yfirleitt því lengra sem maður er kominn inn í verkefni án þess að hafa fengið staðfestingu á því að það sem maður er að gera sé eitthvað sem skiptir máli eða er eftirspurn eftir. - 8. janúar 2016

Þetta skrifaði vonlítill ég fjórum dögum fyrir nýjan áætlaðan útgáfudag - ekki beint gott merki um það sem framundan var.

Ég vissi það ekki þá, enda er bara hægt að tengja punktana eftir á, en þessi ákvörðun mín um að gera skrif að kjarnavenju í mínu lífi átti eftir að spila miklu stærra hlutverk í lífi mínu heldur en Study Cake.

Ég horfi til baka á þessa ákvörðun sem uppsprettu nánast alls þess sem ég tel vera jákvætt við líf mitt í dag - og eftir mörg samtöl við mína nánustu um þetta er ég viss um að flestir sem hafa líka tekið upp þennan vana myndu segja slíkt hið sama.

IV.

Það að skrifa kenndi mér að hugsa skýrt, hvatti mig til að lesa víðar og hlusta meira. Að skrifa um það sem liggur þér á hjarta léttir á þér og býr til pláss fyrir nýjar og betri hugsanir. Það sker í gegnum lúppurnar sem við eigum það öll til að festast í, sumir meira en aðrir.

Að skrifa hjálpar þér að sjá götin í hugmyndum þínum og hugsunum. Þegar þú ert að skrifa er augljóst hvenær þú lendir á vegg, hvenær þú mætir inn á ótroðna slóð og þarft að stoppa til að hugsa þig um í hvorn fótinn þú ættir að stíga.

Ofan á minningar, ljósmyndir og myndbönd byggir þú upp nýja vídd af fortíð, vídd sem varpar ljósi á hvernig (og um hvað) þú varst að hugsa á ákveðnum tímapunktum í lífi þínu. Þessi nýja vídd gefur og gefur af sér og verður dýrmætari hluti af lífi þínu eftir því sem tíminn líður.

Listinn yfir kosti þess að skrifa reglulega lengist í huga mínum með hverju árinu sem ég líður, en í tilefni þess að það eru nákvæmlega fimm ár liðin frá þessari afdrifaríku ákvörðun finnst mér við hæfi að nýta tækifærið og byrja nýjan kafla í þessari vegferð minni.

V.

Alveg síðan að ég byrjaði að skrifa hef ég í einstaka brjálæðiskasti tekið ákvörðun um að skrifa eitthvað og gefa það út. Ég byrjaði á Medium en keypti síðan lénið Thorisson.is til þess að eiga einhvern stað á netinu fyrir mig og mínar hugsanir.

Viðfangsefnin voru í meira lagi handahófskennd og ég var alltaf með kvíðahnút í maganum þegar ég henti einhverju út í kosmósinn. Álit annarra var mér ennþá mjög mikilvægt og ég vissi að ég hafði ekki ennþá "fundið mína rödd".

Síðan þá hef ég áttað mig á því að karakter og hreinskilni skiptir miklu meira máli en orðspor og rödd, sem eru afleiðingar frekar en uppsprettur. Mín reynsla er sú að besta leiðin til að slípa karakter og þjálfa hreinskilnina er einfaldlega að opna sig, gefa meira af sér og búa til fleiri tækifæri til að fá uppbyggilega gagnrýni og læra eitthvað nýtt.

Það að skrifa eitthvað sem á að vera lesið er samt allt annað en að skrifa fyrir sjálfan sig og hefur í för með sér öðruvísi prófíl af kostum og göllum heldur en "dagbókarskrif".

Þegar ég skrifa eitthvað sem ég veit að aðrir munu lesa vil ég skrifa eitthvað upplyftandi og gagnlegt, eitthvað sem hjálpar fólki að vaxa og sjá heiminn frá fleiri sjónarhornum.

En það tekur bæði tíma og þolinmæði sem ég hef ekki haft hingað til. Eða, öllu heldur, sem ég hef sannfært sjálfan mig um að ég hafi ekki haft hingað til.

Fólkið sem ég lít mest upp til gefur nefnilega lítið fyrir svona afsakanir. Þau kreista tímann út úr lífinu eins og það sé seinasta tannkremstúban í borginni - þau búa til stað og stund fyrir sköpun og mótun í öllum litlu pásunum, öllum skúmaskotum lífsins.

Von mín er að það sem ég mun koma til með að skrifa hér muni hjálpa einhverjum þarna úti að skilja heiminn betur, og í besta falli virka sem innblástur fyrir fólk sem vill tileinka lífi sínu því að hafa jákvæð áhrif á fólk, kerfi og samfélög - eitthvað sem ég ætla mér að skrifa meira um á næstunni. Ekki útaf því að ég er einhver sérfræðingur að sunnan þegar kemur að þeim málefnum, heldur einmitt vegna þess að þetta eru hlutir sem mig langar læra meira um.

Ef þú tengir við þetta þætti mér heiður ef þú myndir ákveða að hoppa á þessa lest með mér og fylgja þessu bloggi. Það eru endalaus sæti í lestinni og pláss fyrir alla.

(Fyrsta farrými er frátekið fyrir þau sem skrifa sjálf - stundum lítið, stundum mikið, en alltaf eitthvað.)