👋

Hæ, ég heiti Kjartan

image

Ég er 25 ára gamall forritari og frumkvöðull. Ég elska að koma metnaðarfullu fólki saman í öruggu umhverfi og hjálpa þeim að leysa stór og flókin vandamál, oftast með hjálp hugbúnaðar.

Á daginn (og einstaka sinnum á kvöldin) vinn ég með bestu vinum mínum og kærustu til 7 ára hjá fyrirtæki sem ég stofnaði þegar ég var 18 ára gamall. Það heitir Tímatal en þú þekkir það örugglega fyrir þjónustumarkaðstorgið Noona.

Þegar ég er ekki að vinna, sofa, elda, borða, lesa, hreyfa mig, teygja, hugleiða eða í morgungöngutúr á ég það til að skrifa um hluti sem vekja áhuga minn, og stundum rata þau skrif hingað inn.

Ég hugsa og skrifa fyrst og fremst um eðli raunveruleikans, framtíð mannkynsins, sambönd, samskipti, siðferði, fyrirtækjarekstur, vöruþróun, innri frið og hið góða líf.

Einu sinni fannst mér ekkert verra en að hafa skoðanir, þær voru fyrir brjálæðinga sem sáu ekki alla myndina sem var alltof flókin til þess að nokkur maður gæti myndað sér skoðun á einu eða neinu. Síðan þá hef ég lært að skoðanalaust gott fólk býr bara til meira pláss fyrir þá sem eru með slæmar skoðanir. Megi Guðirnir og framtíðin gera það að verkum að mínar skoðanir reynist ekki á endanum vonlausar, en ef svo er áskil ég mér fyrstur allra rétt til þess að skipta um skoðun og yðrast.

Ef þú rekst á eitthvað í skrifum mínum sem þú veist að er alfarið rangt eða almennt séð illa ígrundað og ekki úthugsað, láttu mig vita. Stór ástæða fyrir því að ég skrifa á netinu er til þess að læra hraðar en ég myndi ella.

Góðar hugmyndir eru yfirleitt annarra og lélegar alfarið mínar.

Kveiktu skrifin mín áhuga eða hugmynd? Sendu mér línu með því að smella hér!