Heilinn er vöðvi

I.

Fátt, ef eitthvað, hefur meiri áhrif á líf okkar heldur en heilinn okkar. Það hversu „gott" eða „slæmt" líf þitt er fer að mestu leiti eftir því hvernig þú túlkar og skynjar það sem gerist við þig - og það er einmitt sérsvið heilans.

Utanaðkomandi þættir hafa auðvitað mikil áhrif á líf okkar: við veljum ekki foreldra, við veljum ekki land til að fæðast í og það er margt sem getur gerst við okkur á lífsleiðinni sem við höfum enga stjórn á. Allt saman mótar þetta okkur meira en við getum ímyndað okkur.

En á sama tíma þekkjum við líka öll óhamingjusamt fólk sem vann öll „lottóin", og hamingjusamt fólk sem, a.m.k á blaði, tapaði þeim öllum.

Það sem gerir gæfumuninn er heilinn, eða nánar tiltekið sjónarhornin sem við notum til að skilja og útskýra lífið okkar; sögurnar sem við segjum sjálfum okkur og það hvert við beinum athyglinni okkar hefur meiri áhrif á lífsgæði okkar heldur en allir utanaðkomandi þættir til samans.

"I'm so gifted at findin' what I don't like the most" - Kanye West (Runaway)

En því miður erum við mörg þaulæfð í að beina athyglinni alltaf í áttina að því sem gæti verið betra. Eins og Kanye erum við best í að finna það sem okkur líkar ekki mest við. Sama hvað er í gangi, þá finnum við alltaf það sem er ekki fullkomið og fáum nautn út úr því að benda á það. Af einhverjum líffræðilegum og samfélagslegum ástæðum er þetta svo gefandi að það er ekki sjaldgæft að þetta breytist í fíkn og verði að hluta af persónuleika okkar, eitthvað sem við stærum okkur af.

Þegar þetta er orðið að vana þá getur verið næstum ómögulegt að njóta, því hvað er það að „njóta" annað en að viljandi beina athyglinni að því sem er gott við það augnablik sem við finnum okkur í?

Það er ekki auðvelt að finna sig á þeim stað að eiga erfitt með að njóta - ég þekki það sjálfur. Þetta getur orðið svo slæmt að það skiptir engu máli hvert tilefnið er, það er alltaf eitthvað að eða eitthvað annað betra þarna úti.

Langvarandi svona ástand getur auðveldlega verið flokkað sem einhversskonar tegund af þunglyndi, og það er erfitt að klifra úr þessari holu.

En það er ekki ómögulegt.

II.

"Neurons that fire together, wire together." - Donald Hebb

Mér finnst þægilegt að hugsa um heilann eins og stórt og flókið kerfi af ám og fljótum, þar sem taugaboðin sem streyma stanslaust á milli óteljandi taugaenda eru vatnið. Þegar þú hugsar, þá er eins og þú sért að láta vatn streyma niður ákveðinn farveg. Því oftar sem þú hugsar það sama, því dýpra ristir vatnsstraumurinn og þeim mun auðveldara verður það fyrir vatnið að ferðast sömu leið seinna.

Til að byrja með, þegar við vorum börn, þá voru allir slóðar lítið farnir og hugsanir flutu frjálslega um. Við vorum meðtækileg og skapandi, ekkert var heimskulegt og allt var mögulegt. En hægt og rólega hugsum við okkur út í horn. Eitt og annað í lífi okkar (án efa einhver blanda af genum og umhverfi) fær okkur til að hugsa meira um X en Y.

Litlar lækjarsprænur breytast í umfangsmikil fljót: það verður auðveldara fyrir vatnið að ferðast alltaf sömu leiðina, og erfiðara að bregða út af spori.

Eins og í náttúrunni, þá eiga hugsanafljótin okkar það líka til að tengjast öðrum slíkum. Ein hugsun leiðir að annarri, og þeir taugaendar sem við tengjum saman bindast sífellt sterkari böndum. En ólíkt náttúrunni, þá streyma hugsanir okkar ekki bara í eina átt. Fljót heilans renna fram og til baka, og eiga það til að fara í hringi.

Það er þess vegna sem við festumst stundum í „hugsanalúppum", eitthvað sem allir sem hafa upplifað kvíða eða þráhyggju kannast líklega við.

Taugar sem skjóta saman, vírast saman, og því oftar sem þær eru virkjaðar, því dýpra verður fljótið. Þess vegna verður alltaf erfiðara að brjóta hugsanalúppu því lengur sem við erum föst í henni, og þess vegna tengjum við ákveðna vana oft við aðstæður og umhverfi. Þetta þekkja allir sem hafa þurft að glíma við einhversskonar fíkn - það er auðvelt að pása drykkjuna í nýju umhverfi á Vogi, en stóra áskorunin er alltaf að koma aftur heim.

III.

Þetta kann allt saman að hljóma frekar illa. Hvaða séns eigum við á því að lifa góðu lífi ef við erum fangar þess hvernig heilinn okkar hefur tilviljanakennt mótast yfir þessa áratugi sem við höfum verið lifandi hingað til?

Ekki örvænta, það eru tvær hliðar á öllum peningum og fyrir hvern galla er til andstæður kostur.

Þessi sami eiginleiki gerir það nefnilega að verkum að hægt er að hugsa um heilann eins og vöðva. Vöðva sem þú getur þjálfað og æft. Ef að taugar sem skjóta saman vírast saman, þá þarftu ekki að gera annað en að kveikja viljandi á réttu taugunum nægilega oft til þess að sú leið verði auðveldasta leiðin til að fara í framtíðinni.

Alveg eins og að byrja að hreyfa sig, þá er þetta erfitt til að byrja með en verður fljótt auðveldara. Og alveg eins og að stunda líkamsrækt, þá hefur þessi iðkun í för með sér ævintýralega margskonar jákvæðar afleiðingar. Ég myndi jafnvel fara svo langt að segja að það að þjálfa heilann á þennan hátt sé mikilvægara en að þjálfa líkamann, því að þjálfa líkamann er barnaleikur þegar þú ert með hausinn á réttum stað.

Að mörgu leiti er líka auðveldara að þjálfa heilann heldur en líkamann, þar sem þú getur gert það hvar sem er og hvenær sem er.

Það eina sem þú þarft að gera er að beina athygli þinni í átt að öðrum hlutum heldur en þú gerir vanalega.

IV.

Stoppaðu til dæmis núna og horfðu í kringum þig. Komdu auga á eitthvað sem þú tekur sem venjulega sem sjálfsögðu (tækið sem þú ert að nota til að lesa þetta er ágætt dæmi ef þú finnur ekkert annað) og veltu því fyrir þér hvað það er langt frá því að vera sjálfsagt að þetta sé hluti af lífi þínu. Það eru engin lögmál í alheiminum sem segja til um að þetta þurfi að vera til, en samt er þetta þarna, verandi, og sem slíkt, partur af lífi þínu. Sem, við hljótum að vera sammála um, er betra en ef það væri það ekki, ekki satt?

Til hamingju, þetta var eitt bicep curl. Þú tengdir jákvæðar tilfinningar við eitthvað í lífi þínu og víraðir saman taugar sem voru kannski ekki tengdar áður, sem þýðir að þetta verður auðveldara næst og enn auðveldara þarnæst.

Ef þú ert á nægilega myrkum stað getur jafnvel þetta verið þér um megn. Þau okkar sem hafa glímt við þunglyndi vita að sumir þurfa að hafa miklu meira fyrir því að beina athyglinni á rétta braut en aðrir. Neikvæðu hugsanafljótin eru einfaldlega dýpri, og hugsanalúppurnar þar af leiðandi erfiðari að skera á.

En mannskepnan er magnað fyrirbæri, og heilinn okkar lumar á sér. Í heimildarmyndinni „The Brain That Changes Itself" (líka bók) varpar sálfræðingurinn Norman Doidge ljósi á nokkur stórkostleg dæmi um fólk sem, oft í kjölfar slysa eða fæðingargalla, þurfti að endurvíra heilann sinn til þess að bæta lífsgæði sín.

Þessi eiginleiki heilans — að geta mótað sjálfan sig — er á ensku kallaður "neuroplasticity" (eitthvað sem við getum okkar á milli kallað taugasveigjanleika, þó að ég hafi ekki fundið neina íslenska þýðingu), og er þessi eiginleiki líklega stærsta einstaka ástæðan fyrir því að við ættum öll að geta verið jákvæð og bjartsýn fyrir framtíðinni, sama hvað við erum að ganga í gegnum.

Ef að lífsgæði okkar mótast fyrst og fremst af því hvernig við túlkum og finnum merkingu í því sem að gerist við okkur, og ef að heilinn er eina farartækið sem við höfum til þess að túlka og búa til merkingu, er þá ekki magnað að hugsa til þess að við getum þjálfað heilann okkar til þess að túlka hluti á jákvæðari hátt - alveg eins og við getum þjálfað vöðva til þess að þola meira álag?

Í ljósi þessa er í raun fátt mikilvægara heldur en að kynna sér fleiri og árangursríkari leiðir til þess að þjálfa heilann - sem setur nánast klisjukennd sjálfshjálparráð eins og hugleiðslu, dagbókarskrif og jafnvel hláturyoga í allt annað samhengi.

Það væri hérna einhversstaðar sem væri líka hægt að benda á hvað fyrirbæri eins og klám og samfélagsmiðlar hjálpa okkur lítið að þjálfa heilann á jákvæðan hátt - en það er eitthvað sem við höfum öll heyrt hundrað sinnum og þurfum ekki að heyra aftur.

Þar að auki finnst mér líklegt að bara það eitt að byrja að beina athyglinni í átt að einhverju nýju og jákvæðu geti eitt og sér dregið úr sjálfseyðingarhvötinni sem dregur okkur aftur og aftur í áttina að fíknum okkar.

Allt sem við gerum og allt sem við hugsum mótar heilann, og heilinn mótar allt sem við gerum og allt sem við hugsum.

V.

Við vorum öll alin upp við þá staðreynd að það væri bæði hægt og eftirsóknarvert að læra og æfa nýja hæfileika, eins og það að spila á hljóðfæri, læra á nýja íþrótt eða nýtt tungumál.

Það sem okkur var því miður ekki kennt var að við getum líka mótað sjálft stýrikerfið sem liggur á bak við hugsanir okkar og hefur áhrif á allan hversdagsleikann okkar. Við getum endurforritað sjálft sjálfið okkar.

Ég trúi því að einhversstaðar í þessari staðreynd sé falin lausnin við öllum okkar vandamálum, eins ýkt og það kann að hljóma.

Það er fátt sem þú getur gert sem hefur í för með sér jákvæðari afleiðingar fyrir þig og alla í kringum þig heldur en að fjárfesta tíma þínum og orku í að horfa inn á við og taka meðvitaðar ákvarðanir um hvernig þú vilt að heilinn þinn hagi sér.

Viltu meiri einbeitingu og getuna til að vinna lengur að settu markmiði? Settu 15 mínútna timer í gang þegar þú sest niður og neyddu þig til að vinna í einum hlut þangað til að tíminn er búinn. Lengdu tímann þegar korter er orðið of auðvelt.

Viltu komast yfir heilsukvíða? Beindu athyglinni að öllum svæðunum í líkamanum þar sem engan sársauka er að finna, eða, sem er enn betra, beindu athyglinni meira að öllum mögnuðu hlutunum sem eru að gerast fyrir utan líkamann þinn. Áður en þú veist af er hræðsludrifin hugsanalúppan hætt og það eina sem situr eftir er staðreyndin: það er ekkert að hræðast.

Ertu að drukkna í eftirsjá? Prufaðu að eyða meiri tíma í að hugsa og skrifa um framtíðina og hvar þú vilt vera eftir 1, 3 eða 5 ár.

Svona endurforritar þú hægt og rólega sjálfið þitt þangað til að nýtt og betra norm byrjar að myndast, skýin fara að hreyfast og allt verður aðeins léttara.

Heilinn er vöðvi og því ber að fagna. Hann er lifandi hlutur, og ef þú ert ekki að taka meðvitaðar ákvarðanir um hvernig þú vilt móta hann, þá er eitthvað annað (eða verra, einhver annar) að gera það.

Og fyrst að ekkert hefur meiri áhrif á lífsgæðin okkar heldur en heilinn, sem stjórnar því hvernig við túlkum, skynjum og upplifum allt sem gerist við okkur, er þá ekki þess virði að velta því vel fyrir sér hvað maður er að gera til þess að móta hann?

Beindu athyglinni að því jákvæða í hverju augnabliki fyrir sig og fylgstu með lífi þínu taka snúning.