Sannleikur (fyrir mig)

Fylgir frá gamla blogginu mínu.

Fyrst gefið út 9. janúar 2018

Það eina sem þú þarft að gera er að skrifa eina sanna setningu. Skrifaðu það sannasta sem þú veist. ... Ernest Hemingway

Hvað er það sannasta sem ég veit?*

Það er hægt að rækta bæði heila og líkama. Ekki sleppa öðru og fela þig á bak við hitt.

Ekkert drepur óreiðu og óvissu hraðar en erfitt spjall. Hreinskilni er eina leiðin til þess að nálgast slíkar samræður.

Fátt er verra en að líða illa og vita ekki af hverju. Kafaðu djúpt. Finndu ástæðuna.

Sjálfið er ekki fasti. Það er hægt að breytast og það er mjög líklegt að þú þurfir á því að halda.

Ekkert er erfiðara en að breyta sjálfum sér. Fátt er mikilvægara.

Til þess að vera góð manneskja þarftu að skilja hvernig þú getur sært.

Það eina sem er mikilvægara en að prufa nýja hluti er að halda fast í það sem virkar.

Gerðu allt fyrir þá sem þú elskar. Þú ert ekkert án þeirra. Hamingja er ekki til nema henni sé deilt.

Lesa, hugsa, skrifa, hlusta, tala. Í þessari röð.

Það munu koma tækifæri sem kalla á mikla fórn. Það gæti verið áhugavert að láta á það reyna.

Fáðu fólk til að vinna með þér, ekki fyrir þig.

Þegar þú finnur einhvern sem segir satt, haltu kjafti og hlustaðu.

Þolinmóður og ákveðinn. Ekki velja á milli.

Öfundsýki er kviksyndi. Eina leiðin út er að læra að hrósa öðrum og vinna í sjálfum sér. Mig grunar að það sé auðveldara að sigra öfundsýki ef þú hefur eitthvað sem aðrir geta öfundað.

Því meira sem þú lest, því auðveldara/skemmtilegra/lærdómsríkara verður það.

Án listar eru peningar lítils virði. (Ath, ekki einskis virði)

Græddu á því sem þú ert góður í. Æfðu þig í hinu.

Ef þú viðheldur jákvæðri hallatölu er lífið alveg nógu langt. Annars er það allt of langt.

Þegar þú færð slæmar fréttir, sýndu skilning. Þegar þú þarft að færa öðrum slæmar fréttir, sýndu virðingu. Aldrei leyfa tilfinningum að stjórna þér á slíkum augnablikum.

Stundum þarf að vökva sköpunargleðina. Stundum þarf að framkvæma. Þetta á ekki alltaf samleið.

Markaðssetning er tól. Ef þú lærir ekki að nota hana, þá mun einhver nota hana á þig.

Stundum vilt þú ríða en ekki ástin þín. Stundum er það öfugt. Stundum viljið þið það bæði. Bara þá má ríða. Það sama gildir um svefn.

Ein hugmynd á blaði jafngildir hundrað í blaðri.

Flestir geta gert allt sem þeir vilja ef þeir vilja það nógu mikið og vinna nógu hart að því. Fæstir hugsa nógu skýrt til að vita hvað þeir vilja. Ég veit ekki enn þá hvað ég vil.

Áður en þú reynir að breyta heiminum, reyndu að halda hreinu heima hjá þér.

Gott líf finnst hvergi nema á mörkum óreiðu og skipulags.

Það er göfugt að skipta um skoðun. Það er vafasamt að gera það aldrei.

Margt getur vaxið í veldisvexti. Reyndu að leyfa bara góðum hlutum að gera það.

Það er miklu auðveldara að lifa góðu lífi ef þú nærð að samgleðjast öðrum.

Andaðu djúpt.

* Varúð, er 22 ára og veit örugglega ekki neitt.