Töfraorðið

„Ég” er töfraorðið.

Ekkert orð er jafn dularfullt en á sama tíma hlaðið jafn mikilli meiningu. Ekkert orð inniheldur jafn mikla möguleika, en fá orð festum við jafn harkalega í sessi.

„Ég” er bæði blekking og það eina sem er raunverulegt, og í því litla orði eru öll önnur falin.

„Ég” er líka orð sköpunar. Með því einu að vekja það upp í huganum kveikir þú á þúsund hugsunum, tilfinningum og hugrenningum.

En það sem þú kallar „Ég” í daglegu tali er ekki Þú.

„Ég” er ekkert annað en tákn, og tákn getur ekki verið Þú. Alveg eins og Tao-ið sem við getum talað um er ekki hið eilífa Tao, þá getur Þú ekki verið hið raunverulega Þú. Alveg eins og Þú ert ekki fötin sem þú hefur safnað að þér í gegnum tíðina, þá ert þú ekki heldur atómin sem þú hefur safnað að þér með því að borða og melta.

Þér finnst kannski augljóst að Þú ert ekki tærnar þínar (sem betur fer fyrir þá sem hafa misst fæturna), en jafn vel heilinn þinn getur ekki heldur verið Þú. Í fyrsta lagi vegna þess að hann er sjálfur líka búinn til úr áður-meltum atómum (sem eru sjálf að mestu tómarúm), en í öðru lagi vegna þess að það er enginn einn staður í heilanum þar sem Þú ert geymd/ur.

Þú ert ekki einu sinni hugurinn þinn — eða hugsanir þínar — þar sem að allt sem þú hugsar er líka afleiðing þess sem þú hefur safnað að þér í gegnum tíðina, alveg eins og líkaminn þinn, nema að hugsanir þínar eru afleiðing uppsafnaðra upplifana, á meðan líkaminn er gerður úr uppsöfnuðum atómum.

Jafnvel orðin sem Þú notar til að hugsa, og Ég er að nota til að skrifa, fáum við að utan og geta því ekki verið Við.

Zen meistarar nota oft hugarþrautir — nefndar Koans — til þess að hjálpa nemendum sínum að sjá dýpra í eðli raunveruleikans. Ein af þeim er spurningin:

„Hvað varst Þú áður en foreldrar þínir gátu þig?”

Fyrir okkur Vesturlandabúana kann svona spurning að hljóma fáránlega. „Ég var ekkert áður en Ég varð til”.

En í stað þess að stökkva strax á augljósa svarið, hvað gerist ef við stöldrum aðeins við og veltum þessu fyrir okkur?

Svo, hvað varst þú áður en foreldrar þínir fengu þá annars góðu hugmynd að búa þig til?

Til þess að geta svarað því hvað þú varst, þá hlýtur þú að þurfa fyrst að geta svarað því hvað þú ert, ekki satt? Og til þess að svara slíkri spurningu er yfirleitt auðveldast að snúa henni við og skilgreina fyrst hvað þú ert ekki.

Við höfum nú þegar komist að því að þú ert ekki líkaminn þinn. Ef svo væri, hvað myndi það segja um þau okkar sem hafa misst útlimi eða orðið fyrir því áfalli að missa hluta af heilastarfsemi sinni?

Við erum ekki heldur hugsanir okkar eða tilfinningar. Við stjórnum því ekki hver næsta hugsun verður, heldur ræðst hún inn á sjónarsvið meðvitundarinnar og tekur yfir. Það sama má segja um tilfinningar. Auðvitað getur þú tekið ákvörðun um að hugsa eitthvað ákveðið „næst”, en í augnablikinu sem ákvörðunin er tekin, þá ert Þú ekki að gera neitt nema að taka eftir óumflýjanlegri niðurstöðu ferla sem hófust áður en augnablikið kom.

Núna erum við fyrst farin að nálgast eitthvað sem gæti mögulega verið Þú. Það sem tekur eftir. Það sem fylgist með og upplifir það sem er að gerast í hverju augnabliki fyrir sig. Eitthvað sem við köllum í daglegu tali meðvitund.

Hér lendum við þó líka í vandræðum því að vísindamenn eru almennt sammála um það að meðvitund sé eitt dularfyllsta fyrirbæri alheimsins. Það má í raun segja að vitum meira um svarthol í hinum enda alheimsins og um dýpstu iðjar hafsins heldur en meðvitundina, sem þó hefur fylgt hverju og einasta okkar frá deginum sem við fæddumst.

Meðvitund er það eina við tilveru þína sem er alltaf að gerast “núna”. Allt annað sem þú “ert” býr annað hvort í fortíðinni eða framtíðinni. Eftirsjá og þekking býr í fortíðinni, kvíði og draumar í framtíðinni. Það eina sem er að gerast núna er Þú að taka eftir því óumflýjanlega.